Biðja fólk um að gefa blóð

AFP

Sjúkrahús og blóðbankar í Bretlandi hafa óskað eftir því að fólk gefi blóð sem hægt er að gefa fólki sem særðist í árásinni í Manchester. Alls eru 59 á átta sjúkrahúsum í borginni og nágrenni hennar. 22 létust í árásinni. Meðal annars börn.

Fjölmargir stjórnmálaleiðtogar hafa brugðist við fréttum af árásinni í Manchester og hið sama á við tónlistarmenn en árásin var gerð á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ari­ana Grande í Manchester Arena-höllinni. Talið er að árásarmaðurinn, sem lést við að virkja sprengju sem hann var með á sér, hafi verið einn að verki.

Borgaryfirvöld í London hafa ákveðið að auka viðbúnað í borginni vegna árásarinnar. Flaggað er í hálfa stöng við Downing-stræti.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um árásina er forseti Frakklands, Emmanuel Macron. Hann mun ræða við forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, síðar í dag.  Macron sendir bresku þjóðinni samúðarkveðjur og heitir samstarfi við Breta í baráttunni gegn hryðjuverkum. Það gerir Vladimír Pútín, forseti Rússlands, einnig og forseti Kína hefur sent Elísabetu Englandsdrottningu samúðaróskir.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði sig um árásina í Manchester í Betlehem í morgun. Hann fordæmir illmenninn sem standi á bak við árásina. 

Engar lestir munu fara um Victoria-lestarstöðina við Manchester Arena þar sem tónleikarnir voru í gær. Eins hafa allir stjórnmálaflokkar Bretlands sammælst um að gera hlé á kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar 8. júní.

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, hefur einnig lýst yfir samúð með bresku þjóðinni og segir Þjóðverja standa með Bretum í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Árásin í gærkvöldi muni aðeins styrkja samstarf ríkjanna gegn þeim sem undirbúa og fremja svo viðbjóðslega glæpi.

Forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, fordæmir árásina og segir að hugur hans sé hjá fjölskyldum fórnarlambanna.

Theresa May mun stýra Cobra, neyðarnefnd ríkisstjórnar Bretlands, í dag en fundurinn hefst klukkan 9 að staðartíma, klukkan 8 að íslenskum tíma. Amber Rudd heimavarnaráðherra er þegar mætt í bústað forsætisráðherra við Downing-stræti í London. 

Ráðherrar streyma nú í Downing-stræti þar sem Cobra-hópurinn mun funda.
Ráðherrar streyma nú í Downing-stræti þar sem Cobra-hópurinn mun funda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert