Duterte lýsir yfir herlögum

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, lýsti yfir herlögum í suðurhluta landsins í dag í kjölfar þess að öryggissveitir hans lentu í átökum við vígamenn með tengsl við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. Fjallað er um málið í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að talsmaður forsetans hafi greint frá þessu á blaðamannafundi í Moskvu, höfuðborg Rússlands, þar sem Duterte var í opinberri heimsókn. Forsetinn hefur áður hótað því að grípa til herlaga ef þurfa þyki.

Herlögin ná til héraðsins Mindanao sem er um þriðjungur landsins með um 20 milljónir íbúa. Talsmaðurinn, Ernesto Abella, segir herlögin verða í gildi í 60 daga í samræmi við stjórnarskrá landsins.

Rodrigo Duterte.
Rodrigo Duterte. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert