Rannsóknin á Trump vel rökstudd

John Brennan, fyrrverandi forstjóri CIA, á fundi þingnefndarinnar í dag.
John Brennan, fyrrverandi forstjóri CIA, á fundi þingnefndarinnar í dag. AFP

Fyrrverandi forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, John Brennan, telur rannsókn á mögulegum tengslum kosningateymis Donalds Trump Bandaríkjaforseta og stjórnvalda í Rússlandi vera vel rökstudda. Þetta kom fram í máli hans á fundi nefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem fjallar um leyniþjónustumál.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að Brennan hafi greint þingnefndinni frá því að hann vissi af leynilegum gögnum sem sýndu fram á tengsl á milli rússneskra embættismanna og Bandaríkjamanna sem tekið hefðu þátt í kosningaherferð Trumps. Sagði hann að Rússar hafi skipt sér á ófyrirleitinn hátt af forsetakosningunum á síðasta ári og verið mjög aðgangsharðir í þeim efnum. Hins vegar sagðist hann ekki vita hvort kosningateymið sem slíkt hafi átt í samskiptum við ráðamenn í Rússlandi.

„Ég rakst á og veit um upplýsingar og leynileg gögn sem sýndu fram á tengsl og samskipti á milli rússneskra embættismanna og Bandaríkjamanna sem tóku þátt í kosningaherferð Trumps,“ sagði Brennan sem lét af embætti í janúar. Sagðist hann enn fremur hafa haft af þessu áhyggjur þar sem þekkt væri að Rússar reyndu að ná tökum á slíkum einstaklingum. Hann hafi velt því fyrir sér hvort það gæti tekist.

Talsmenn Trumps sögðu í kjölfarið að vitnisburður Brennans fyrir þingnefndinni kæmi heim og saman við það sem þeir hefðu alltaf sagt. Það er að engin sönnunargögn væru um að tengsl væru á milli Rússlands og kosningaherferðar Trumps. Brennan sagði að þegar hann hefði látið af embætti hefði mörgum spurningum í þessum efnum verið ósvarað. Fyrir vikið ætti rannsókn alríkislögreglunnar FBI fyllilega rétt á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert