Tveir handteknir vegna árásarinnar

Vopnaðir lögreglumenn sjást nú á götum Manchester í námundag við …
Vopnaðir lögreglumenn sjást nú á götum Manchester í námundag við tónleikahöllina. AFP

Breska lögreglan hefur handtekið 23 ára gamlan karlmann í tengslum við árásina sem var gerð á tónleikum Ariönu Grande í Manchester í gærkvöldi. Alls létust 22 í árásinni og 59 særðust. AFP-fréttastofan segir að liðsmenn Ríkis íslams hafi lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Maðurinn var handtekinn í Chorlton, sem er í suðurhluta Manchester. Þetta kemur fram á vef BBC og hafa lögregluyfirvöld í Manchester staðfest þetta á Twitter síðu sinni. Fréttavefur Guardian segir lögreglu hafa girt af götun aCarlton Road í Chorlton og að samkvæmt sínum heimildum þá sé talið að sjálfsvígsmaðurinn hafi búið í íbúð í götunni, þar sem lögregla stendur nú fyrir húsleit.

Einn karlmaður, sem framdi sjálfsvígsárás, sprengdi heimatilbúna sprengju í anddyri Manchester Arena, þar sem tónleikarnir fóru fram í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Sprengjan sprakk klukkan 22:33 að breskum tíma (kl. 21:33 að íslenskum tíma).

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að árásin hafi verið skelfileg og ógeðfeld hryðjuverkaárás.

Á meðal þeirra sem létust var 18 ára nemi, en byrjað er að greina frá nöfnum þeirra sem létust í árásinni. 

Uppfært 12.52: Lögregluyfirvöld í Manchester greindu frá því um hádegisbil að tveir hefðu verið handteknir í tengslum við sjálfsvígsárásina. Auk 23 ára karlmannsins sem áður var búið að greina frá þá hefði einnig einn verið handtekinn í Fallowfield, í suðurhluta Manchester. Þar hefði lögregla einnig sprengt sprengju undir eftirliti, en Guardian segir breska fjölmiðla áður hafa greint frá því að hár hvellur hefði heyrst í Fallowfield. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert