Vann 50 km hlaup í sandölum

Vel skóað fólk á hlaupum.
Vel skóað fólk á hlaupum. AFP

Hin 22 ára María Lorena Ramírez sigraði 500 aðra hlaupara í kvennaflokki í hlaupinu „Cerro Rojo“ í Mexíkó. María var klædd sandölum gerðum úr endurunnu dekkjagúmmíi. Þessu greinir BBC frá í dag.  

María sigraði án nokkurs hlaupabúnaðar. Hún hafði heldur ekki fengið neina faglega þjálfun. Ásamt sandölunum var María klædd í pils og trefil. María tilheyrir ættbálknum Tarahumara sem þekktur er fyrir afbragðshlaupara. Tarahumara-búar hlaupa alla jafna á þunnbotna, heimagerðum sandölum nefndum „huaraches“ eða berfættir.

Maraþonhlauparinn Christopher McDougall skrifaði um hlaupagetu Tarahumara-búa í bók sinni Fæddur til að hlaupa. Christopher komst að því að fólk sem heyrir til ættbálksins þyrfti að hlaupa afar langar vegalengdir til að heimsækja nágrannaþorp sín og veiðisvæði. Það hlypi saman í hópum, til að veita hvert öðru stuðning.

Christopher sagði lykilatriði velgengni Tarahumara-búa að þeir sæu hlaup sem list, sem notað væri í ýmsum trúarathöfnum og í leikjum þar sem allir tækju þátt. Christopher hélt því einnig fram að neysla Tarahumara-búa á kolvetnaháum maísbjór styddi hlaupin.  

Hlaupið var haldið í borginni Puebla í Mexíkó 29. apríl síðastliðinn. Keppendur komu frá 12 mismunandi löndum. María kláraði keppnina á sjö tímum og þremur mínútum og vann 6.000 mexíkóska pesa fyrir eða um 32.000 krónur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem María keppir í hlaupi en á síðasta ári endaði hún í öðru sæti í 100 kílómetra hlaupinu „Caballo Blanco“ í Chihuahua-borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert