Hvíta húsið gagnrýnt fyrir leka

Lögregla í Manchester vísar manni veginn.
Lögregla í Manchester vísar manni veginn. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að leka upplýsingum um rannsókn breskra yfirvalda á hryðjuverkaárásinni í Manchester á mánudag. Bandarískir miðlar greindu m.a. frá nafni árásarmannsins á sama tíma og bresk yfirvöld neituðu að staðfesta nafn hans við breska miðla, sem þó höfðu upplýsingarnar undir höndum.

Sérfræðingar segja tíða leka úr bandaríska embættismannakerfinu áhyggjuefni og að bandamenn Bandaríkjamanna kunni að veigra sér við því í framtíðinni að deila með þeim viðkvæmum upplýsingum.

Þess er skemmst að minnast að Donald Trump Bandaríkjaforseti deildi nýlega leynilegum upplýsingum frá Ísraelum með utanríkisráðherra Rússlands og sendiherra Rússlands í Washington.

Á mánudagskvöld, þegar árásin í Manchester átti sér stað, hafði fréttamaður ABC eftir bandarískum embættismanni í tísti að líklega væri um að ræða sjálfsvígsárás. Á þriðjudag nefndu CBS og NBC árásarmanninn sem Salman Abedi, 22 ára, og þá hafði Reuters nafnið eftir „þremur bandarískum embættismönnum.“

Kona virðir fyrir sér blóm og skilaboð sem íbúar Manchester …
Kona virðir fyrir sér blóm og skilaboð sem íbúar Manchester hafa lagt við Albert-torg. AFP

Breskir miðlar höfðu nafnið undir höndum á þeim tíma en bresk yfirvöld neituðu að staðfesta að Abedi væri árásarmaðurinn í tvo tíma eftir að hann hafði verið nafngreindur í bandarískum miðlum.

Thomas Sanderson, framkvæmdastjóri hjá Center for Strategic and International Studies í Washington, segir afar bagalegt að breska lögreglan sé sett í þá stöðu að fjöldi blaðamanna safnist saman við heimili hins grunaða á meðan rannsókn stendur yfir.

Þá varar hann við dómgreindar- og agaleysi í Hvíta húsinu.

„Bretland og Ísrael eru líklega tvær helstu gagnauppsprettur okkar. Nú hugsa þau: Mun það skaða okkur í hvert sinn sem við deilum upplýsingum? Þá þarftu að fara að rýna í öll gögnin,“ segir Sanderson.

Lawrence Freedman, sem sat í nefnd Breta um Íraksstríðið, segir lekana munu komast á það stig að Bretar hætta að deila upplýsingum með Bandaríkjamönnum. Það þykir þó ólíklegt, samkvæmt Guardian, þar sem Bretar hagnast verulega á samstarfinu.

Innanríkisráðherra Breta, Amber Rudd, sagði í kjölfar Cobra-fundar í morgun að Bandaríkjamenn hefðu sannfært hana um að þeir myndu ekki leka upplýsingum um rannsókna í fjölmiðla aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert