Þrír handteknir og fórnarlömb nafngreind

Það ríkir mikill samhugur meðal íbúa Manchester.
Það ríkir mikill samhugur meðal íbúa Manchester. AFP

Lögreglan í Manchester hefur handtekið þrjá einstaklinga í suðurhluta borgarinnar í tengslum við rannsókn lögreglu á sjálfsvígsárásinni á mánudagskvöld. Þá er lögregla við Disbury-moskuna, sem árásarmaðurinn sótti ásamt fjölskyldu sinni en að því er Guardian greinir frá virðist þó lítið vera í gangi við bygginguna og leit virðist ekki standa yfir.

BBC hefur greint frá því að fjórði maðurinn, sem var handtekinn í gær, var Ismail Abedi, 23 ára bróðir árásarmannsins Salman Abedi.

Búið er að greina frá nöfnum tíu þeirra sem létust í árásinni: Martyn Hett, 29 ára, Angelika Klis, 40 ára, Marcin Klis 42 ára, Georgina Callander, 18 ára, Saffie Rose Roussos, 8 ára, John Atkinson, 28 ára, Kelly Brewster, 32 ára, Olivia Campbell, 15 ára, Alison Howe, 45 ára, og Lisa Lees, 47 ára.

64 særðust og 20 eru sagðir í lífshættu.

Búið er að loka þinghúsinu í Lundúnum fyrir öllum sem ekki hafa passa og skipulagðar skoðunarferðir um bygginguna hafa verið felldar niður.

Lögregla stendur vörð við Elsmore Road í Fallowfield, þar sem …
Lögregla stendur vörð við Elsmore Road í Fallowfield, þar sem árásarmaðurinn er talinn hafa búið. AFP

Húðflúrarar í Manchester hafa hrundið af stað söfnun þar sem þeir bjóða býfluguflúr fyrir 50 pund en peningarnir munu renna til fórnarlamba árásarinnar og fjölskyldna þeirra. Býflugan varð merki Manchester í iðnbyltingunni og táknar vinnusiðferði og samfélagsanda borgarbúa.

Fregnum ber ekki saman um fyrirhugaða tónleika söngkonunnar Ariönu Grande, sem var nýfarin af sviðinu þegar Abedi lét til skarar skríða. Sumir miðlar segja hana hafa ákveðið að fresta tónleikaferð sinni en samkvæmt BBC hefur ekkert verið tilkynnt um tónleikana sem áttu að fara fram í O2-tónleikahöllinni í Lundúnum á morgun og föstudag.

Vopnaður lögreglumaður við Manchester Picadilly-lestarstöðina.
Vopnaður lögreglumaður við Manchester Picadilly-lestarstöðina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert