Tóku 4 vígamenn í fíkniefnarassíu

Þýskir lögreglumenn fyrir framan kanslaraskrifstofuna í Berlín.
Þýskir lögreglumenn fyrir framan kanslaraskrifstofuna í Berlín. AFP

Þýska lögreglan handtók í dag níu meinta fíkniefnasmyglara og eru fjórir þeirra sagðir vera grunaðir um að vera vígamenn íslamskra öfgatrúarsamtaka.

Sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu saksóknara í Berlín að íslamistarnir fjórir „væru þess megnugir að grípa til ofbeldis,“ en aðgerðir lögreglunnar höfðu beinst að því að leysa upp samtök fíkniefnasmyglara.

Í aðgerðum lögreglu var lagt hald á rafmagnsbúnað, eiturlyf og vopn og fundust munirnir í húsleit sem lögregla framkvæmdi á sex stöðum í fjórum hverfum Berlínar.

Þá var búið að gefa út handtökuskipun fyrir þrjá hinna meintu vígamanna og segir AFP að til hafi staði að gefa einnig út handtökuskipun fyrir þann fjórða. Lögregla veitti hins vegar ekki frekari upplýsingar um mennina, né hvaða aðgerða þeir hafi mögulega ætlað að grípa til.

Yfirvöld í Þýskalandi hafa sætt nokkurri gagnrýni frá því að hryðjuverkaárás var gerð á jólamarkað í Berlín í desember á síðasta ári, eftir að í ljós kom að lögregla hafði látið af eftirliti með árásarmanninum Anis Amri nokkrum mánuðum áður en árásin var gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert