Bréfsprengja sprakk í bíl Papademos

Lucas Papademos, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands.
Lucas Papademos, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands. AFP

Lucas Papademos, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, slasaðist þegar bréfsprengja sprakk í bíl hans í Aþenu í dag. Er um að ræða fyrstu hryðjuverkaárásina sem beinist að fyrrverandi þjóðarleiðtoga í áratugi samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar. 

Var Papademos í aftursæti svarts Mercedes að lesa póstinn sinn þegar sprengjan sprakk. Papademos er særður á brjóstkassa, kviði og fótum en er ekki í lífshættu. Bílstjóri og tveir lífverðir forsætisráðherrans fyrrverandi særðust einnig lítillega.

Papademos varð forsætisráðherra í Grikklandi í nóvember 2011 og leiddi þar tímabundna samsteypustjórn á tímum efnahagskreppu þar í landi.

„Ég fordæmi árásina á Lucas Papademos og vona að hann og aðrir sem voru með honum jafni sig fljótt,“ skrifaði Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, á Twitter í dag. Þá gerði þingið í landinu hlé á fundi sínum og fordæmdi árásina.

Stjórnvöld hafa krafist þess að póstþjónustan í Grikklandi fari betur yfir póstsendingar til að fyrirbyggja að bréfsprengjur sem þessar séu sendar.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Rannsakendur fóru yfir bílinn eftir að sprengjan sprakk í dag.
Rannsakendur fóru yfir bílinn eftir að sprengjan sprakk í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert