Fundu líkamsleifar eftir 29 ár

Peggy Sue Case.
Peggy Sue Case.

Lögreglan í Utah í Bandaríkjunum hefur staðfest að líkamsleifar sem fundust undir kjallara í bænum Spanish Fork á mánudag séu af ungri konu sem hvarf fyrir 29 árum.

Konan hét Peggy Sue Case og var 27 ára gömul þegar hún hvarf árið 1988. Hún bjó í húsinu þar sem líkamsleifarnar fundust ásamt kærasta sínum, en hann liggur nú undir grun um að hafa verið valdur að hvarfi Case.

Núverandi íbúi hússins fann höfuðkúpu og fleiri líkamsleifar á mánudag. Hafði hann tekið eftir sigi í gólfinu á kjallaranum og ákveðið að grafa niður í moldargólfið þar sem hann hafði heyrt um hvarf Case. 

Var höfuðkúpan vafin inn í teppi og plast um 45 sentímetra niður í jörðina. Hringdi íbúinn í lögregluna sem nú hefur staðfest að líkamsleifarnar eru Case. Voru tannlæknagögn notuð til að staðfesta það. 

Þegar málið var rannsakað á sínum tíma sögðust vitni hafa tekið eftir því að Case og kærastinn hennar, Michael Kufrin, hafi rifist í samkvæmi sem þau voru bæði gestir í kvöldið sem hún hvarf. Hafi Kufrin sakað hana um að hafa reynt við aðra menn í samkvæminu og orðið reiður. Þau yfirgáfu samkvæmið saman og var það í síðasta sinn sem Case sást á lífi.

Kufrin hringdi daginn eftir á vinnustað Case og sagði að hún kæmist ekki í vinnuna þar sem hún væri veik. Daginn eftir það sagði hann samstarfsfélögum hennar að hún hefði farið úr bænum til að kaupa bíl. Samstarfsfélagarnir urðu áhyggjufullir um hana og létu lýsa eftir henni 15. júlí 1988, sex dögum eftir samkvæmið. 

Kufrin hélt því fram við lögreglu að Case væri í sambandi við sig í gegnum síma, en hætti síðar að vinna með lögreglunni. Nú vill lögreglan hafa uppi á honum og tala við hann á ný. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var leitað á staðnum þar sem líkamsleifarnar fundust, þegar málið var rannsakað árið 1988. Þá fannst ekkert þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert