Handtökuskipun á hendur hot jóga-gúrú

Stofnandi hot jóga hefur ekki greitt lögmanni sínum bætur fyrir …
Stofnandi hot jóga hefur ekki greitt lögmanni sínum bætur fyrir kynferðislegt áreiti. AFP

Dómari í Los Angeles hefur gefið út handtökuskipun á hendur stofnanda hot jóga-aðferðarinnar, Bikram Choudhury. Hann hefur ekki greitt fyrrverandi lögmanni sínum bætur upp á sex milljónir dollara, sem hann var dæmdur til að greiða vegna kynferðislegs áreitis í hennar garð á síðasta ári.

Choudhury flúði frá Kaliforníu þegar dómur var kveðinn upp í málinu en honum var birt niðurstaða dómsins í Mexíkó þar sem hann var með jóganámskeið.

Minakshi Jafa-Bodden var yfirmaður á lögfræðisviði í jógaskóla Coudhury í Los Angeles á árunum 2011 til 2013. Hún fullyrðir að henni hafi verið sagt upp störfum af því hún vildi ekki hylma yfir rannsókn þegar Choudhury var sakaður um nauðgun. Þá segir Jafa-Bodden hann einnig hafa áreitt sig kynferðislega.

Við réttarhöldin sagðist Choudhury nánast vera orðinn gjaldþrota vegna málsins og að reksturinn hans þrifist ekki lengur.

Lögmaður Jafa-Bodden sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að hún myndi ekki gefast upp. Hún myndi eltast við hann eins lengi og hún þyrfti, hvar sem væri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert