Lík tveggja Indverja sótt á Everest

Fjallgöngumenn á leið upp Everest.
Fjallgöngumenn á leið upp Everest. AFP

Björgunarstarfsmenn hafa fundið lík tveggja indverskra fjallgöngumanna sem létust á hæsta fjalli heims, Everest, á síðasta ári. Ekki var hægt að flytja lík þeirra á sínum tíma vegna veðurs.

Hópur nepalskra fjallgöngumanna fann lík þeirra Goutam Gosh og Paresh Nath á hinu svokallaða „dauðasvæði“ skammt frá tindinum, sem er 8.848 metra hár.

Líkin verða í framhaldinu flutt til Katmandu í Nepal.

Að sækja lík svona hátt upp er umdeilt í samfélagi fjallgöngumanna.

Sum leitarfyrirtæki hafa neitað að sækja lík í þessa hæð og telja að það tefli öðrum í of mikla hættu.

Að minnsta kosti 382 fjallgöngumenn hafa komist upp á tind Everest frá suðurhlíð fjallsins á fjallgöngutímabilinu sem nú er í gangi. 120 til viðbótar hafa komist upp hlíð fjallsins frá Tíbet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert