Trump vill ákæra vegna lekans

Theresa May og Donald Trump á leiðtogafundi NATO í Brussel.
Theresa May og Donald Trump á leiðtogafundi NATO í Brussel. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að leki á upplýsingum frá bandarískum leyniþjónustustofnunum vegna hryðjuverksins í Manchester í Bretlandi væri mikið áhyggjuefni og hótaði að þeir yrðu ákærðir sem bæru ábyrgð á honum.

Bresk stjórnvöld eru æf yfir lekanum en upplýsingarnar fóru til bandarísku leyniþjónustustofnananna frá bresku leyniþjónustunni. Trump hefur rætt málið við Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, á leiðtogafundi NATO í Brussel sem þau sækja bæði en það hefur sett í uppnám samstarf leyniþjónusta landanna tveggja. 

Fram kom í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu fyrir fund leiðtoganna tveggja að Bandaríkin mætu ekkert samband við annað ríki meira en sérstakt samband þeirra við Bretland. May sagði við Trump að leyniþjónustusamstarf landanna væri gríðarlega mikilvægt en að það yrði að vera byggt á trausti. Bretland yrði að geta treyst því að upplýsingar væru öruggar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert