Börn fundu höfuðkúpu og mannabein

Wikipedia

Skólabörn fundu fyrir um tveimur vikum höfuðkúpu og bein úr manni í skóglendi í nágrenni borgarinnar Köln í Þýskalandi. Lögreglan framkvæmdi í kjölfarið leit á svæðinu en hún telur að fundurinn geti varpað meira ljósi á mál sem hún hefur til þessa ekki getað leyst. 

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að börnin hafi auk höfuðkúpunnar fundið handlegg og bein úr fótleggjum. Beinin voru falin undir laufblöðum samkvæmt fréttinni. Síðasta sumar fannst hauslaust lík í plastpoka í nágrenni borgarinnar. Höfuðkúpan og beinin sem fundust nú tilheyrðu sama einstaklingi samkvæmt rannsókn réttarmeinafræðings.

Ekki liggur fyrir hins vegar af hverjum líkamsleifarnar eru. Lögreglan telur hins vegar að maðurinn hafi verið ljós á hörund og á aldrinum 20-35 ára. Hins vegar hefur enginn sem kemur heim og saman við lýsinguna verið tilkynntur týndur.

Tugir lögreglumanna tóku þátt í leit í skóginum í kjölfar síðari fundarins og fundust í henni fleiri bein sem verið er að rannsaka. Lögreglan vonast til þess að finna vísbendingar um það með hvaða hætti maðurinn hafi látist eða hver hafi valdið dauða hans.

Skammt frá þeim stað sem höfuðkúpan fannst og beinin fundu lögreglumenn líka molduga dýnu, rúmföt og tóma íþróttatösku sem bendir til þess að einhver hafi hafst við þar. Einnig fundust tómar bjórflöskur, umbúðir, sígarettur og kveikjarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert