„Ég get ekki andað“

Fangavörðurinn skellti Sabbie í gólfið en hann kvartaði undan því …
Fangavörðurinn skellti Sabbie í gólfið en hann kvartaði undan því að eiga erfitt með andardrátt. Skjáskot/Myndskeið NYT

Þegar Michael Sabbie var færður á bak við lás og slá í Arkansas í júlí fyrir tveimur árum fyrir smávægilegt afbrot sagði hann starfsmönnum frá því að hann væri hjartveikur, með háan blóðþrýsting og astma. Hann þyrfti lyf vegna þess. Innan við þremur dögum síðar fannst Sabbie látinn í klefanum sínum.

Myndskeið náðist af því þar sem heilsu hans fór hrakandi síðustu klukkustundirnar og hann grátbað starfsmenn fangelsisins um hjálp. Hann heyrist í það minnsta 19 sinnum segja: „Ég get ekki andað“ en í eitt skipti skríður hann og reynir að ná andanum. Á meðan horfa fangaverðir á hann.

Fjölskylda Sabbie hefur höfðað mál þar sem hún sakar 12 starfsmenn fangelsisins og hjúkrunarkonur um að hafa valdið dauða hans. Segir í lögsókninni að starfsmennirnir hafi sýnt af sér vítavert sinnuleysi og hundsað augljós merki þess að heilsa Sabbie væri slæm.

„Þið hafið greinilega starfsfólk sem misnotar aðstöðu sína og hundsar beiðni fólks um hjálp og köll þar sem kemur fram að fangi tjái sig oft um að hann geti ekki andað,“ sagði Erik Heipt, lögfræðingur fjölskyldunnar.

Sabbie, 35 ára fjögurra barna faðir, var handtekinn 19. júlí árið 2015 vegna gruns um að hafa látið miður falleg orð falla í garð eiginkonu sinnar. Hjúkrunarkona skoðaði hann vegna þess að hann átti erfitt með andardrátt næstu nótt en auk þess gat hann ekki andað þegar hann lá.

21. júlí var hann aftur færður til skoðunar hjá hjúkrunarkonu eftir að hafa hnigið niður í klefanum og aftur þegar hann var á leið til baka í klefann. Í dómsal 21. júlí tóku ýmsir eftir því að Sabbie svitnaði og átti erfitt með andardrátt, samkvæmt lögsókninni. Dómarinn spurði hvort hann væri veikur og Sabbie svaraði því til að hann hefði spýtt blóði og þyrfti að komast á sjúkrahús.

Hins vegar var ákveðið að fara með Sabbie aftur í fangaklefann. Þegar þangað var komið var tekið upp myndskeið þar sem hann hallar sér upp að vegg til að reyna að ná andanum. Skömmu síðar kemur fangavörður og hendir honum í gólfið.

„Ég get ekki andað, ég get ekki andað,“ heyrðist Sabbie segja en annar fangavörður kom og spreyjaði piparúða framan í hann. Sabbie var dreginn í sturtu, þar sem hann hneig niður, áður en honum var komið aftur í fangaklefann. Þar fannst hann látinn næsta morgun.

Frétt New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert