„Gerðu það, ekki deyja“

Ferjan var hífð upp af hafsbotni í mars og síðan …
Ferjan var hífð upp af hafsbotni í mars og síðan þá hafa líkamsleifar þriggja farþega fundist. AFP

Tekist hefur að ná upplýsingum úr farsímum nokkurra einstaklinga sem létust þegar Sewol-ferjan sökk undan ströndum Suður-Kóreu árið 2014. Um 304 farþegar voru um borð í ferjunni þegar hún sökk, flestir skólabörn á ferðalagi.  

Flaki ferjunnar var lyft upp af hafs­botn­in í mars á þessu ári með afar flókinni björgunaraðgerð. Voru það ættingjar þeirra níu farþega sem höfðu ekki fundist, sem þrýstu á aðgerðirnar. Síðan þá hafa líkamsleifar þriggja einstaklinga fundist um borð í ferjunni. Síðast í gær fundust líkamsleifar Cho Eun-Hwa, 17 ára framhaldsskólastúlku.

Líkamsleifar Cho Eun-Hwa fundust á fimmtudag. Hún var 17 ára …
Líkamsleifar Cho Eun-Hwa fundust á fimmtudag. Hún var 17 ára þegar hún lést. AFP

Um 80 farsímar hafa fundist um borð í ferjunni og meðal þeirra upplýsinga sem hafa náðst úr þeim eru textaskilaboð. „Gerðu það, ekki deyja,“ segir í einum skilaboðanna sem ættingi sendi drukknandi ástvini. „Hafðu samband um leið og þú getur,“ segir í öðrum skilaboðum. „Landhelgisgæslan er búin að senda björgunarbát af stað,“ sagði ættingi fullur af von. „Kom þyrla og bjargaði ykkur?“ spurði annar vongóður.

Þeir sem fara með rannsókn slyssins vonast til að gögn úr farsímum og GPS-upplýsingar geti varpað ljósi á síðustu andartök þeirra sem voru um borð, og jafnframt gefið nákvæmari upplýsingar um það hvenær ferjan sökk.

304 farþegar fórust þegar Sewol-ferjan sökk árið 2014. Flestir þeirra …
304 farþegar fórust þegar Sewol-ferjan sökk árið 2014. Flestir þeirra sem fórust voru skólabörn. AFP

Nöfn eigenda símanna hafa ekki verið gefin upp, en rannsakendur segja upplýsingarnar hluta af þeirri heildarmynd sem verið er að reyna að kalla fram. Öll sýna skilaboðin mjög tregafull samskipti drukknandi einstaklinga og ættingja sem þrá ekkert heitar en jákvæðar fréttir.

Rann­sókn á sínum tíma leiddi í ljós að mannleg mistök, ólögleg endurhönnun ferjunnar, reynsluleysi áhafnarinnar og yfirhlaðin lest hefði valdið slysinu. Skip­stjór­inn, Lee Jun-Seok, var dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi vegna máls­ins. 14 aðrir úr áhöfninni voru dæmd­ir í fang­elsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert