Tíu þúsund bjargað á fjórum dögum

Fjöldi flóttafólks bíður þess sem verða vill í Tripoli í …
Fjöldi flóttafólks bíður þess sem verða vill í Tripoli í Líbíu eftir að hafa verið bjargað af bátum á Miðjarðarhafi. AFP

Um tíu þúsund flóttamönnum hefur verið bjargað undan ströndum Líbíu síðustu fjóra daga. Að minnsta kosti 54 hafa látist.

Þetta staðfesta talsmenn líbísku og ítölsku strandgæslunnar. Til viðbótar bjargaði túniski herinn 126 flóttamönnum af hafinu. Fólkið var um borð í uppblásnum gúmmíbátum, skammt frá landamærunum að Líbíu.

Í gær björguðu skipverjar líbískra skipa um 1.200 manns. Var fólkið flutt til Tripoli. Ítalska strandgæslan bjargaði svo 2.200 manns í gær. Það fólk var flutt til Ítalíu. Enn er flóttafólk að koma að ströndum Ítalíu í von um að finna betra líf í Evrópu. Flest er flóttafólkið frá norður- og vesturhluta Afríku.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag var að minnsta kosti 6.400 manns bjargað af Miðjarðarhafinu. Þá fundust einnig lík 44, þar af 35 manna sem voru um borð í bát sem fékk á sig brotsjó og hvolfdi.

Yfirvöld telja að enn fleiri hafi drukknað í Miðjarðarhafinu síðustu daga. 

Ekki var tekið á móti neinu flóttafólki á Sikiley í vikunni vegna fundar G7-hópsins, leiðtoga stærstu iðnríkja heims. 

Vilja bæta landamæraeftirlit

Á þessu ári hafa meira en 50 þúsund flóttamenn komið til Ítalíu. Þá eru þeir sem bjargað var í vikunni ekki taldir með. Meira en 1.400 hafa drukknað eða er saknað að því er fram kemur í upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

Af þeim 181 þúsund flóttamönnum sem komu til Ítalíu á síðasta ári höfðu um 90% hafið för sína yfir Miðjarðarhafið í Líbíu.

Það er ekkert nýtt að flóttafólk frá mörgum Afríkuríkjum komi til Líbíu til þess að reyna að komast til Evrópu. Stjórnvöld þar í landi hafa nú hvatt Evrópuþjóðir, m.a. Ítali, til að útvega það sem til þarf til að hægt sé að fylgjast með landamærum Líbíu betur, aðallega landamærunum í suðri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert