Trump ákveður sig í næstu viku

Donald Trump og Melania Trump fóru frá Sikiley í dag. …
Donald Trump og Melania Trump fóru frá Sikiley í dag. Þar með er lokið fyrstu heimsókn Trumps út fyrir landsteinana frá því að hann tók við sem forseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að ákveða í næstu viku hvort hann efni Parísarsamkomulagið svokallaða frá árinu 2015. Í samkomulaginu tóku þjóðir heims höndum saman um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Trump sat í dag fund leiðtoga G7-ríkjanna svokölluðu, helstu iðnríkja heims. Fundurinn fór fram á Sikiley og engin niðurstaða varð hvað þetta málefni fundarins varðaði. Hin ríkin sex hafa öll sagst ætla að virkja samninginn og fara að honum. Trump svaraði gagnrýni á afstöðu sína með sínum hætti á Twitter. „Ég mun taka lokaákvörðun mína um Parísarsamkomulagið í næstu viku!“ skrifaði hann í dag. 

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Trump sé nú opinn fyrir málefninu en hann hefur í gegnum tíðina sagst efast um að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru að eiga sér stað í heiminum. 

Trump hefur nú lokið við sína fyrstu ferð utan landsteinanna frá því hann var kjörinn forseti. Hann fór af fundinum á Sikiley í dag án þess að vera viðstaddur blaðamannafund sem hefð er fyrir að halda að honum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert