Banna skilnaði í föstumánuði

Palestínumaður les í kóraninum við upphaf föstumánaðarins, ramadan.
Palestínumaður les í kóraninum við upphaf föstumánaðarins, ramadan.

Dómstjóri íslamsks dómstóls í Palestínu hefur bannað dómurum að samþykkja hjónaskilnaði meðan á ramadan, föstumánuði múslima, stendur. Hann telur að á þessu tímabili geti fólk látið hörð orð falla sem það síðar sjái eftir.

Dómstjórinn Mahmud Habash segist hafa komist að þessari niðurstöðu út frá reynslu síðustu ára. Í föstumánuðinum borða flestir múslimar ekkert frá sólarupprás til sólarlags. Þá leggja þeir sem reykja sígaretturnar líka á hilluna. Dómstjórinn segir að af þessum sökum sé þráðurinn í fólki oft stuttur. Ramadan hófst í gær.

„Sumir, sem hafa hvorki reykt né borðað, búa til vandamál í hjónaböndum sínum,“ sagði hann í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. Því geti þessi hópur tekið skyndiákvarðanir sem ekki eru á rökum reistar.

Samkvæmt opinberum tölum í Palestínu gengu 50 þúsund manns í hjónaband á Vesturbakkanum og Gaza árið 2015. Á sama tímabili voru rúmlega 8.000 hjónaskilnaðir skráðir.

Viðvarandi og mikið atvinnuleysi er sagt helsta ástæða skilnaða í landinu. Þá er fátækt mikil í Palestínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert