Handabandið var „stund sannleikans“

Þegar þjóðarleiðtog­arn­ir tveir hitt­ust á fundi áttu þeir nokk­urra sek­úndna …
Þegar þjóðarleiðtog­arn­ir tveir hitt­ust á fundi áttu þeir nokk­urra sek­úndna langt handa­band, þar sem hvor­ug­ur virt­ist ætla að gefa eft­ir. AFP

Vandræðalegt handaband Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Emmanuels Macron Frakklandsforseta var „ekki saklaust“ heldur „stund sannleikans“. Þetta segir Macron í frönskum fjölmiðlum í dag.

Eins og mbl.is fjallaði um vakti handaband þjóðarleiðtoganna tveggja mikla athygli á dögunum, þegar þeir virtust vera í nokkurs konar þrjóskukeppni um það hvor sleppti fyrr. Leiðtogarnir hittust á fundi í Brussel á fimmtudag í tengslum við leiðtogafund NATO á fimmtudag.

Í frönskum fjölmiðlum í dag segist Macron hafa viljað sýna Trump að hann muni ekkert gefa eftir, en jafnframt muni hann ekki ofgera hlutina. 

Var að ávinna sér virðingu Trumps

Handabandið sem um ræðir var nokk­urra sek­úndna langt og tókust þeir svo fast í hendur að hnúarnir á höndum þeirra urðu hvítir. Virtist hvorugur ætla að gefa eftir en þegar Trump sleppti á endanum hélt Macron enn í hann.

Fjölluðu fjölmiðlar vestanhafs um að með þessu hefði Macron líklega verið að senda Trump skilaboð, og hefur Macron nú staðfest það. Segir hann að með þessu hafi hann verið að ávinna sér virðingu Trumps. „Donald Trump, forseti Tyrklands eða forseti Rússlands sjá heiminn í ljósi valda og það angrar mig ekki,“ sagði hann. „Ég trúi ekki á ríkiserindrekstur í gegnum opinbera gagnrýni, en í samskiptum gef ég ekkert eftir. Þannig öðlast maður virðingu.

Handa­band Trumps hef­ur áður vakið at­hygli, en hann virðist oft grípa harka­lega í fólk sem hann tek­ur í hend­urn­ar á og jafn­vel halda í það óvenju­lega lengi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert