Hundruð innlyksa í miðri orrustu

Hermenn flykkjast inn í borgina Marawi til að berjast við …
Hermenn flykkjast inn í borgina Marawi til að berjast við skæruliða sem tengjast hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. AFP

Um tvö þúsund borgarar eru innlyksa í borg á Filippseyjum meðan á átökum hersins og skæruliða stendur. Bardagarnir hafa nú staðið í um viku og hafa hundrað manns fallið.

Herinn hóf miklar sprengjuárásir í borginni Marawi á Mindanao-eyju. Yfirmenn hersins saka skæruliðana um grimmdarverk, m.a. að hafa drepið börn.

Átökin urðu til þess að Rodrigo Duterte forseti innleiddi herlög í hluta landsins. Sagðist hann gera það vegna uppgangs hryðjuverkamanna sem tengjast Ríki íslams.

Meirihluti íbúa borgarinnar hefur lagt á flótta vegna átakanna en um 2.000 eru enn innlyksa í borginni, aðallega á svæðum sem skæruliðarnir hafa á valdi sínu.

Starfsmaður á vegum borgarinnar segir að fólkið sé óttaslegið og óski eftir því að vera bjargað. Það sé hins vegar ekki hægt að svo stöddu vegna árása. 

Skæruliðarnir sögðu í gær að þeir myndu auka árásir sínar á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert