Assange fær að dvelja áfram í sendiráðinu

Julian Assange ávarpar viðstadda af svölum sendiráðs Ekvador í Lundúnum …
Julian Assange ávarpar viðstadda af svölum sendiráðs Ekvador í Lundúnum þegar Svíar tilkynntu að þeir hefðu fellt niður rannsókn sína á hendur honum. AFP

Lenin Moreno, nýkjörinn forseti Ekvador, gagnrýndi Julian Assange stofnanda Wikileaks í dag og sagði hann vera „hakkara“. Hann sagði land sitt þó munu halda áfram að veita Assange, sem dvalið hefur í sendiráði Ekvador í London í fimm ár, hæli.

Moreno, sem tók við embætti forseta fyrr í þessum mánuði, hefur verið mun gagnrýnni í garð Assange en forveri hans Rafael Correa. Sagði Correa að Ekvador hefði gert skyldu sína með því að veita Assange hæli árið 2012.

„Assange er hakkari. Það er nokkuð sem við höfnum og nokkuð sem ég persónulega hafna,“ sagði Moreno og varaði Assange við að „skipta sér af“ stjórnmálum í Ekvador.

„Ég skil hins vegar stöðuna sem hann er í,“ fastur í sendiráði Ekvador í London, sagði forsetinn.

Fyrr í mánuðinum greindi embætti saksóknara í Svíþjóð frá því að fallið yrði frá kynferðisbrotarannsókn á hendur Assange og handtökuskipan sem henni fylgdi. Bresk stjórnvöld hafa hins vegar enn hug á að handtaka Assange ef hann yfirgefur sendirráðið, en Assange braut skilorð í Bretlandi árið 2012 þegar hann leitaði hælis í sendiráðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert