Öfgamaður ákærður fyrir morð

Öfgamaðurinn og morðinginn Jeremy Joseph Christian.
Öfgamaðurinn og morðinginn Jeremy Joseph Christian. AFP

Yfir 600 þúsund Bandaríkjadalir, rúmar 60 milljónir króna, hafa safnast til stuðnings fjölskyldum þriggja manna sem reyndu að verja unga stúlku sem er íslamstrúar og vinkonu hennar fyrir öfgamanni sem trúir á yfirburði hvíta kynstofnsins í lest í Portland í Oregon-ríki á föstudag. Tveir mannanna létust og sá þriðji liggur alvarlega særður á sjúkrahúsi eftir árásina.

Árásarmaðurinn, öfgamaðurinn Jeremy Joseph Christian, 35 ára gamall, réðst fyrst á stúlkurnar tvær. Önnur þeirra er 16 ára og er svört en hin er 17 ára múslími en sú var með slæðu um höfuðið (hijab) þegar Christian réðst á þær. 

Mennirnir tveir sem létust, Taliesin Myrddin Namkai-Meche og Ricky John Best, komu stúlkunum tveimur til aðstoðar og eins sá þriðji, Micah David-Cole Fletcher, sem er mjög alvarlega særður eftir árásina. 

Að sögn vitna æpti Christian á stúlkurnar að drepa ætti alla múslima. Þeir hefðu drepið kristna árum saman. Mennirnir þrír gripu þarna inn í og bentu árásarmanninum á að hann væri að ráðast á ungar stúlkur. Christian stakk þá mennina þrjá og forðaði sér frá borði. Þegar hann var handtekinn skömmu síðar af lögreglu bað hann lögreglu um að drepa sig. 

Jeremy Joseph Christian mun koma fyrir dómara á morgun þar sem hann verður ákærður fyrir tvö morð, morðtilraun og ólöglegan vopnaburð. Óvíst er hvort hann verður einnig ákærður fyrir hatursorðræðu. 

Í myndskeiði sem birt hefur verið á netinu sést Christian taka þátt í aðgerðum til stuðnings málfrelsi í apríl. Þar heyrist hann æpa: Múslímar deyið! þar sem hann gengur um vafinn inn í bandaríska fánann.  

 

 Mennirnir hafa verið hylltir sem hetjur í Oregon og kom fjöldi fólks saman til að minnast fórnarlamba árásarinnar, Namkai-Meche, 23 ára, sem nýverið lauk háskólanámi og Best, sem var 53 ára gamall, en hann er fyrrverandi hermaður sem barðist í Afganistan og Írak. Hann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn.

Mjög er þrýst á Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að tjá sig um árásina í Portland en meðal þeirra sem hafa óskað eftir því að forsetinn tjái sig um hetjudáð mannanna sem létust er sjónvarpsmaðurinn Dan Rather. 

Því þrátt fyrir að þeir hafi hylltir sem hetjur af borgarstjóranum í Portland og af bandarísku alríkislögreglunni hefur ekkert heyrst frá Trump. Aftur á móti tjáði hann sig tíu sinnum á Twitter í gær um hin ýmsu málefni eða allt frá heilbrigðiskerfinu til lygafregna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert