Slátruðu kálfi í mótmælaskyni

Komið hefur til tals að úthluta hverri einustu kú nokkurs …
Komið hefur til tals að úthluta hverri einustu kú nokkurs konar kennitölu til að auðvelda eftirlit. AFP

Ungliðahreyfing inverska Kongress-flokksins hefur vakið hörð viðbrögð eftir að liðsmenn hennar slátruðu kálfi til að mótmæla umdeildu banni á sölu nautgripa til slátrunar. Atvikið átti sér stað í Kerala, sem er eitt fárra ríkja Indlands þar sem slátrun nautgripa og neysla nautakjöts eru heimilar.

Frétt mbl.is: Myrtir fyrir að reyna að stela kúm

Ungmennin voru mynduð slátra kálfinum og hrópa slagorð gegn stjórnvöldum, sem tilkynntu um fyrrnefnt bann í síðustu viku. Bannið mun að öllum líkindum gera Indverjum ómögulegt að nálgast nautakjöt, einnig í þeim ríkjum þar sem það þykir lostæti.

Lögregla í Kerala mun rannsaka atvikið þar sem slátrun dýra á almannafæri er bönnuð í ríkinu. Yfirvöld þar hafa hins vegar heitið því að fá banninu hnykkt fyrir dómstólum og saka stjórnvöld um að ganga erinda þjóðernissinnaðra hindúa.

Stjórnarflokkurinn BJP hefur talað fyrir aukinni vernd til handa nautgripum, sem hindúar álíta heilaga. Árásum á hendur þeim sem sakaðir eru um að stuðla að slátrun nautgripa hefur fjölgað umtalsvert frá því að forsætisráðherrann Narendra Modi komst til valda árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert