Yorkshire-kviðristan tengd við morð í Svíþjóð

Sænska lögreglan.
Sænska lögreglan. AFP

Breski fjöldamorðinginn Peter Sutcliffe, sem er þekktur undir heitinu „Yorkshire-kviðristan“, hefur verið tengdur við tvö óleyst morðmál í Svíþjóð. Sutcliffe var dæmdur fyrir morð á 13 konum og fyrir að hafa reynt að drepa sjö til viðbótar á áttunda áratugnum.

Samkvæmt frétt Kvällsposten hafði lögreglan í West Yorkshire samband við sænsk yfirvöld í fyrra vegna morða á tveimur sænskum konum í Svíþjóð.

Bo Lundqvist yfirlögregluþjónn staðfestir þetta við blaðið og segir að breska lögreglan hafi viljað fá frekari upplýsingar um morðin og hvort beita mætti nýrri tækni við rannsóknina. Eins hvort nafn Sutcliffe hefði komið upp við rannsóknina á morðunum tveimur. Önnur konan, 31 árs, fannst látin í Gautaborg í ágúst 1980 og hin, 26 ára gömul kona, fannst látin í Malmö í september það sama ár. Aldrei hefur verið upplýst hver myrti konurnar.

Lundqvist staðfesti við Kvällsposten að lögreglan í Malmö hefði haft samband við bresku lögregluna í janúar 1981 eftir að sænskir fjölmiðlar bentu á að Peter Sutcliffe hefði jafnvel verið í Malmö þegar 26 ára gamla konan var myrt. Interpol hefði hins vegar sagt að Sutcliffe hefði ekki verið í Malmö á þessum tíma en síðar hefði komiðí ljós að þetta væri ekki rétt hjá Interpol.

Að sögn farþega í ferju milli Malmö og danska bæjarins Dragør okkrum dögum síðar var Sutcliffe um borð í ferjunni og því er líklegt að hann hafi verið í Malmö á þessum tíma. Sutcliffe var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1981, en morðin 13 framdi hann á tímabilinu 1975 til 1980.

Frétt The Local sem byggir á frétt Kvällsposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert