Hefur ekki áhuga á að verða konungur

AFP

Enginn í bresku konungsfjölskyldunni hefur áhuga á að verða konungur eða drottning, segir Harry prins í viðtali við bandaríska tímaritið Newsweek. Hann tekur hins vegar fram að fjölskyldan muni takast á við þær skyldur sínar þegar að því kemur.

Harry prins, sem er sonur Karls og Díönu, tjáir sig einnig um útför móður sinnar í viðtalinu en Díana prinsessa lést þegar hann var tólf ára gamall. Þar var hann látinn ganga ásamt öðrum nánustu aðstandendum í göngu um miðborg London vegna útfararinnar. Að sögn Harry ætti ekkert barn að fá beiðni um að gera slíkt.

„Móðir mín var nýlátin og ég varð að ganga langa leið á eftir líkkistu hennar umkringdur þúsundum sem fylgdust með mér á vettvangi auk milljóna sem fylgdust með í sjónvarpi,“ segir Harry í viðtalinu og bætir við: „Ég tel að ekkert barn eigi að þurfa að gera slíkt, ekki undir neinum kringumstæðum. Ég held að þetta yrði ekki gert í dag.“

Díana lést í bílslysi í París árið 1997 og Harry greindi frá því nýverið að hann hafi þurft á aðstoð sálfræðings að halda á þessum tíma.

Viðtalið við Harry er ítarlegt enda er það tekið á löngum tíma. Þar kemur fram að Harry hafi komið að því að nútímavæða konungdæmið. Hann segir frábært að sjá hvernig Vilhjálmi bróður hans og fjölskyldu takist að lifa venjulegu lífi og að hann kaupi sjálfur inn. En viðurkennir um leið að hann sé dauðhræddur að einhver taki mynd á síma sinn af innkaupakörfunni. 

„Jafnvel þó að ég verði konungur einn daginn þá mun sé annast mín innkaup sjálfur,“ segir Harry.

Viðtalið í heild

Harry prins.
Harry prins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert