Mætti í stuttbuxum og var sendur heim

Joey fór í stuttbuxum í vinnuna. Það var ekki vinsælt …
Joey fór í stuttbuxum í vinnuna. Það var ekki vinsælt í fyrstu.

Nú gengur hitabylgja yfir Bretlandseyjar og þá getur reynst þrautin þyngri að fara að reglum um klæðaburð sem finna má í mörgum fyrirtækjum og stofnunum landsins. Hinn tvítugi Joey Barge, sem vinnur í símaveri í Aylesbury, tók því þá skiljanlegu ákvörðun að mæta léttklæddur í vinnuna á mánudag, þ.e. í hnjásíðum stuttbuxum.

Barge átti von á því að þetta yrði ekki vinsælt og smellti því mynd af sér í buxunum á Twitter áður en hann fór að heiman. „Ef kona getur klæðst pilsi eða kjól í vinnunni get ég þá ekki verið í snyrtilegum stuttbuxum?“ skrifaði hann.

Aðeins hálftíma seinna hafði hann fengið svarið. Hann hafði verið sendur heim úr vinnunni.

Barge var þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og í stað þess að fara í þykkar síðbuxur ákvað hann að klæðast svipuðum fatnaði og kvenkyns samstarfsmenn hans í símaverinu: Kjól.

Í frétt Telegraph um málið segir að ekki sé ljóst hvort Barge fór í vinnuna í kjólnum en síðar þennan sama dag setti hann skjáskot af tölvupósti frá yfirmanni sínum á Twitter þar sem fram kom að vegna hitabylgjunnar hefðu stjórnendur fyrirtækisins ákveðið að karlmenn mættu klæðast styttri buxum en vanalega, um 3/4 af lengd síðbuxna. Þá kom einnig fram að þær yrðu að vera snyrtilegar og ekki í ljósum lit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert