Baðst afsökunar á ummælum um Trump

Johnny Depp.
Johnny Depp. AFP

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Johnny Depp baðst í dag afsökunar á að hafa gantast með það að Donald Trump Bandaríkjaforseti kynni að verða myrtur.

Leikarinn lét ummælin falla í gær á Glastonbury-hátíðinni í Bretlandi en þau voru á þá leið að það væri orðið nokkuð langt liðið síðan leikari hefði myrt forseta. Vísaði hann þar til þess að leikarinn John Wilkes Booth myrti þáverandi forseta Bandaríkjanna, Abraham Lincoln, í Ford-leikhúsinu í Washington, höfuðborg landsins, árið 1865.

„Hvenær var það sem leikari myrti forseta síðast?“ spurði Depp og bætti við að sjálfur væri hann ekki leikari heldur hefði lifibrauð af því að ljúga. „Hins vegar er nokkuð liðið síðan það gerðist og kannski tímabært aftur.“

Viðbrögð við ummælunum hafa verið mjög hörð. Meðal annars frá Hvíta húsinu. Depp sagðist aðeins hafa ætlað að skemmta þeim sem til heyrðu en ekki skaða neinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert