Hreinsa mannorð samkynhneigðra

Neðrideild þýska þingsins samþykkti tillöguna í gær.
Neðrideild þýska þingsins samþykkti tillöguna í gær. AFP

Þýska þingið samþykkti í gær að ógilda sakfellingar yfir 50 þúsund samkynhneigðum karlmönnum sem dæmdir voru vegna kynhneigðar sinnar í valdatíð nasista í Þýskalandi. Þá verði mönnunum einnig greiddar skaðabætur en lög sem bönnuðu samkynhneigð voru áfram í gildi í landinu í mörg ár eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk.

Áratuga löng barátta aðgerðasinna og fórnarlamba, um að hreinsa nöfn þeirra sem settir voru á sakaskrá fyrir kynhneigð sína, hefur þannig loks borið árangur. Talið er að um fimm þúsund þeirra séu enn á lífi.

Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í neðrideild þingsins þar sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og bandamenn hennar í ríkisstjórn njóta mikils meirihluta.

Bann við „ónáttúrulegum“ kynferðisathöfnum

Mönnunum munu bjóðast 3.000 evrur í miskabætur auk 1.500 evra til viðbótar fyrir hvert ár sem þeir sættu fangelsi vegna brota á fyrrnefndum lögum. Samkvæmt 175. grein hegningarlaga var lagt algert bann við hvers kyns „kynferðislegum athöfnum sem stangast á við náttúruna…. séu þær milli einstaklinga af karlkyni eða á milli einstaklinga og dýra,“ að því er segir í greininni sem ekki er lengur í gildi. Ekki var þar kveðið á um sambærilegt bann milli kvenkyns einstaklinga.

Lögin eiga rætur sínar aftur að rekja til ársins 1871 en þeim var lítið sem ekkert beitt fyrr en í tíð nasista. Árið 1935 voru lögin hert með þeim hætti að heimiluð refsing gegn þeim sem gerðust brotlegir við löginn var 10 ára þrældómsvinna. Yfir 42.000 menn voru dæmdir í valdatíð nasista í Þýskalandi og voru sendir í fangelsi eða í fangabúðir fyrir samkynhneigð.

Árið 2002 kynntu stjórnvöld ný lög til sögunnar sem ógiltu sakfellingar mannanna, en þau lög náðu ekki til þeirra einstaklinga sem voru lögsóttir að loknu seinna stríði.

175. greinin var loks numin á brott úr hegningarlögum í Austur-Þýskalandi árið 1968. Í Vestur-Þýskalandi árið 1969 voru tekin upp lög sem voru í gildi fyrir tíð nasismans en það var ekki fyrr en árið 1994 sem lögin voru endanlega felld úr gildi.

Með annan fótinn í fangelsi

„Svartur blettur fjarlægður, meira en tuttugu árum eftir að grein 175 var loksins þurrkuð í burtu, þessi blettur í lagalegri sögu lýðræðislegs Þýskalands hefur verið fjarlægður,“ sagði Sebastian Bickerich, hjá jafnréttisskrifstofu stjórnvalda, í yfirlýsingu vegna tillögunnar sem var samþykkt í gær.

„Á þessum tíma lifði maður með annan fótinn í fangelsi,“ sagði þá Fritz Schmehling sem dæmdur var fyrri brot á lögunum sem unglingur árið 1957. Schmehling er 74 ára gamall í dag en hann hefði óskað þess að unnusti hans til langs tíma, Bernard sem lést árið 2011, hefði enn verið á lífi þegar réttlætið loks sigraði.

„Hann sagði við mig: „Ég efast um að ég muni nokkurn tíman sjá þessa dóma ómerkta.“ Ég held að hann hefði verið alveg jafn glaður og þegar Berlínarmúrinn féll,“ bætti Schmehling við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert