Kúguð til að senda myndir eða pening

Fjölda sjálfsmorða má rekja til internetkúgana þar sem fórnarlömbin eru …
Fjölda sjálfsmorða má rekja til internetkúgana þar sem fórnarlömbin eru látin senda fleiri kynferðislegar myndir eða myndbönd eða peninga. AFP

Stafrænar þvingunaraðgerðir, blekkingar, hótanir og kúganir gagnvart börnum og ungmennum hafa aukist mjög á síðustu árum. Europol hefur gefið út viðvörun og hafið herferð vegna þessa og birt leiðbeiningar um hvernig beri að bregðast við, en mál af þessu tagi eru sjaldan tilkynnt til lögreglu.

Í flestum tilfellum er um að ræða þvinganir sem fela í sér að börn og ungmenni eru hvött til að senda af sér kynferðislegar myndir en svo krafin um greiðslu gegn loforði um að þær verði ekki birtar opinberlega en í skýrslu Europol um þessa tegund netglæpa kemur fram að stúlkur séu í meirihluta barna sem beitt eru kynferðislegum kúgunum en drengir séu útsettari fyrir því að vera beittir fjárkúgunum á netinu. Börn allt niður í sjö ára aldur eru fórnarlömb þessara glæpa.

„Börn nota internetið í meira og meira mæli til að eiga samskipti og tengjast félagslega. Það ætti að geta talist eðlilegur hluti af þroska þeirra, en við verðum að fræða þau um þær hættur sem þau kunna að mæta þar svo netumhverfið verði þeim eins öruggt og mögulegt er,“ er haft eftir Stefen Wilson, yfirmanni netglæpa í Evrópu hjá Europol.

Kynferðislegur áhugi eða hagnaðarvon

„Hins vegar er nýrri aðferð beitt í auknum mæli - að krefja fórnarlömbin um að fá önnur börn til þátttöku í myndum og myndskeiðum, svo sem systkini eða vini. Í slíkum tilfellum, eru börn sem annars temja sér örugga netnotkun útsett fyrir því að verða fórnarlömb kynferðisofbeldis og kúgana á netinu,“ segir í tilkynningu frá Barnaheill um málið.

Segir þar að veita þurfi þeim sálræna skaða sem fórnarlömbin verða fyrir athygli. Fjöldi bara hefur framið sjálfsmorð á síðustu árum eftir að hafa orðið fórnarlömb internetkúgana. „ Fjöldi mála á netinu þar sem börn eru beitt kynferðisþvingunum og fjárkúgunum koma aldrei fram þar sem börnin upplifa mikla skömm og vanlíðan vegna efnisins sem þau afhentu glæpamanninum,“ segir í tilkynningunni.

Tvær ástæður eru fyrir því að gerendur sækja í börn að því er kemur fram í skýrslunni um þetta efni; gerandinn hefur kynferðislegan áhuga á börnum og ungmennum og markmiðið með kúgunni er að fá kynferðislegt efni. Gerandinn hefur hagnaðarvon þar sem markmiðið er að hagnast fjárhagslega á kúguninni.

Herferðinni #Say NO!, eða #Segðu Nei! Er andsvar við þessari alvarlegu þróun, segir í upplýsingum frá Barnaheill. „Herferðin miðar að því að gefa þeim ráð sem hafa lent í slíkum glæpum, eða eru líklegir til að verða fórnarlömb kúgunar með nauðung á netinu, sem og að hvetja til að málin séu tilkynnt.“

Meðal efnis herferðarinnar er stuttmynd, fáanleg á öllum tungumálum Evrópusambandslanda, sem hjálpar fólki að bera kennsl á ferlið, gefur góð ráð um netnotkun og leggur áherslu á mikilvægi þess að tilkynna um glæpinn til þar til gerðra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert