Setja fram kröfur í þrettán liðum

Stjórnvöld í Katar reka al-Jazeera að hluta.
Stjórnvöld í Katar reka al-Jazeera að hluta.

Fjögur ríki á Arabíuskaga hafa afhent stjórnvöldum í Katar lista yfir kröfur í þrettán liðum sem fara verði að eigi að aflétta viðskiptaþvingunum sem þau settu nýverið á landið. Stjórnvöld landanna fjögurra saka Katara um að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum. Meðal krafna er að Al-Jazeera fréttastöðinni verði lokað og að dregið verði úr samskiptum við Írani. Stjórnvöldum í Katar eru gefnir tíu daga til að fara að kröfunum.

Stjórnmálaskýrendur telja að listinn geri fátt annað en að reita Katara til reiði.

Meðal krafna sem fram koma, samkvæmt fjölmiðlum eru:

- Að loka Al-Jazeera alfarið.

- Að fresta byggingu tyrkneskrar herstöðvar í Katar.

- Að draga úr tengslum við Írani.

- Að stjórnvöld í Katar hætti að skipta sér af málum landanna fjögurra.

- Að hætt verði að gefa borgurum landanna fjögurra ríkisborgararétt í Katar.

Starfsmenn Al-Jazeera eru vægast sagt óánægðir. Allar tilraunir til að loka fréttastofunni eru árás á frelsi fjölmiðla, segir í tilkynningu frá fréttastöðinni, sem er með höfuðstöðvar sínar í Katar. „Við sem vinnum hjá stöðinni teljum að allt ákall um að loka Al-Jazeera sé ekkert annað en tilraun til að hefta tjáningarfrelsið á svæðinu og til að brjóta á rétti fólks til að nálgast upplýsingar,“ segir í yfirlýsingu starfsmanna stöðvarinnar. Al-Jazeera er ríkisrekin og að hluta í eigu Al-Thani-fjölskyldunnar. 

Löndin fjögur sem um ræðir eru Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert