Rússneskir njósnarar „einstakt fólk“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræðir við börn í skólabúðum á …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, ræðir við börn í skólabúðum á Krímsskaga. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, lofað njósnanet Rússa í ríkissjónvarpi Rússlands í dag. Njósnarar Rússa væru einstakt fólk og dyggir þjónar föðurlandsins en forsetinn heimsótti í dag skólabúðir á Krímsskaga fyrir börn á aldrinum 11-14 ára.

„Það að gefa upp á bátinn líf sitt, sína nánustu og kærustu og yfirgefa landið í mörg ár og tileinka líf sitt föðurlandinu. Það eru ekki allir færir um að gera það,“ sagði Pútín sem sjálfur starfaði á sínum tíma hjá leyniþjónustu Sovétríkjanna sálugu, KGB.

„Þetta er ekki fólk eins og allir hinir,“ sagði forsetinn. Það hefði kosti, sannfæringu og mannkosti umfram aðra. „Þetta er einstakt fólk. Ég óska þeim hamingju og hagsældar.“ Rifjaði hann síðan upp eigin störf sem leyniþjónustumaður.

Pútín sagðist einkum hafa fengist við störf sem snerust um að fara huldu höfði. Forsetinn var staðsettur í Dresden í Þýskalandi, sem þá var hluti Austur-Þýskalands sem stýrt var af kommúnistum, á árunum 1985-1990 undir lok kalda stríðsins.

„Jafnvel áður en ég lauk námi vissi ég að ég vildi verða leyniþjónustumaður,“ segir í ævisögu Pútíns. Áhugi hans hafi vaknað eftir lestur skáldsagna um njósnara.

Skólabúðirnar á Krímskaga voru stofnaðar að frumkvæði Valdimírs Lenín, leiðtoga byltingarinnar 1917 sem markaði upphaf Sovétríkjanna. Voru þær settar á laggirnar árið 1925 og voru eins konar heilsárs dvalarstaður fyrir börn í ungliðahreyfingu Kommúnistaflokks Sovétríkjanna.

Sólabúðirnar áttu erfitt uppdráttar eftir að Sovétríkin féllu og Úkraína varð sjálfstætt ríki með Krímskaga innanborðs en hafa gengið í endurnýjun lífdaganna eftir að Rússar innlimuðu skagann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert