Tilkynnti drottninguna til lögreglunnar

Elísabet Bretadrottning.
Elísabet Bretadrottning. AFP

Glöggur áhorfandi að því þegar Elísabetu Bretadrottningu var ekið til þinghússins í London, höfuðborgar Bretlands, á dögunum vegna setningar breska þingsins, veitti því athygli að drottningin var ekki með bílbeltið spennt þar sem hún sat í aftursæti glæsibifreiðar.

Skemmst er frá því að segja að viðkomandi hafði samband við neyðarlínuna og tilkynnti um brot drottningarinnar. Fjallað er um málið á fréttavef Daily Telegraph en ekki fylgir sögunni hvernig sá sem tók við símtalinu brást við því. Talsmaður lögreglunnar sá sig hins vegar knúinn til þess að leggja áherslu á að neyðarlínan væri aðeins fyrir neyðartilfelli vegna málsins.

Skylt er samkvæmt breskum lögum að nota bílbelti ef það er til staðar en Elísabet Bretadrotting nýtur hins vegar friðhelgi þegar kemur að lögsóknum. Fram kemur í yfirlýsingu frá bresku hirðinni vegna málsins að drottningin reyni ávallt að tryggja að allt sem hún tekur sér fyrir hendur sé að fullu í samræmi við lög og reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert