Hefja byggingu hæsta húss Afríku

Byggingu turnanna á að ljúka árið 2019.
Byggingu turnanna á að ljúka árið 2019.

Hornsteinn hefur verið lagður að hæstu byggingu Afríku sem fengið hefur nafnið Pinnacle, eða Turnspíran. Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta, lagði hornsteininn en húsið mun rísa í Upper Hill-hverfinu í Naíróbí. Turninn verður 300 metrar á hæð, töluvert hærri en sá turn álfunnar sem nú er hæstur. Sá er í Jóhannesarborg í Suður-Afríku og er 223 metra hár.

Vonast er til þess að byggingu Turnspírunnar verði lokið árið 2019.

Um verður að ræða tvo turna sem klæddir verða gleri. Húsin verða reist af kínverskum verktökum en eigendur hússins og aðstandendur verkefnisins eru Hass Petroleum og White Lotus Group, sem bæði eru með höfuðstöðvar í Dubaí.

Í háhýsinu verður m.a. 255 herberga Hilton-hótel sem verður þriðja hótel keðjunnar í Kenía og það fimmtugasta í Afríku. Í húsinu verða einnig lúxusíbúðir og ýmis fyrirtæki.

Frétt CNN um háhýsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert