Hlupu fyrir styrktarsjóð Vetrano

Karina Vetrano var myrt þegar hún var úti að skokka …
Karina Vetrano var myrt þegar hún var úti að skokka í New York síðasta sumar. Ljósmynd/Instagram

Vinir og vandamenn Karinu Vetrano sem var myrt í Queens í New York í Bandaríkjunum síðasta sumar hafa safnað 60 þúsund Bandaríkjadölum í styrktarsjóð í hennar nafni. Hún var úti að skokka þegar morðið var framið.

Morðið vakti mikinn óhug í New York og var mikið um það fjallað í fjölmiðlum vestra. Ekki síst vegna óstöðvandi leitar föður hennar að morðingjanum. Í febrúar handtók lögregla hinn tvítuga Chanel Lewis og ákærði fyrir morð og kynferðislega misnotkun. 

Fjársöfnunin var haldin í formi boðhlaups og tók fjöldi fólks þátt í hlaupinu að því er fram kemur á vef NBC.

Að sögn lögreglu fannst á vettvangi lífsýni Lewis undir nöglum Vetrano, á síma hennar og hálsi. Þá segir lögregla hann hafa játað brot sín tvisvar á upptöku, bæði í yfirheyrslum hjá lögreglu og einnig hjá saksóknara. 

Styrktarsjóðinum er ætlað að styrkja ungar stúlkur til náms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert