Jarðskjálfti skók Japan

Jarðskjálfti upp á 5,2 skók miðbik Japans í gærkvöldi að íslenskum tíma en upptök hans voru um 30 kílómetra vestur af borginni Ina. Ekki hafa borist fregnir af mann- eða eignatjóni og ekki er talið að skjálftinn hafi komið af stað flóðbylgju.

Fram kemur í frétt AFP að almenningssamgöngur á svæðinu hafi verið stöðvaðar um tíma vegna jarðskjálftans. Ekkert bendir til þess að skjálftinn hafi haft áhrif á starfsemi kjarnorkuvera sem starfrækt eru þar.

Öflugur jarðskjálfti skók Japan í mars 2011 með þeim afleiðingum að flóðbylgja skall á norðausturströnd landsins sem kostaði þúsundir manna lífið. Þá ollu hamfarirnar alvarlegum skemmdum á Fukushima-kjarnorkuverinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert