Lítil von að fleiri finnist á lífi

Björgunarmenn eru enn að grafa í grjót- og aurskriðu sem féll í suðvesturhluta Kína í gær. Yfir níutíu er enn saknað og vonin um að finna einhverja á lífi fer þverrandi.

Staðfest hefur verið að tíu létust en skriðan féll yfir 62 hús í þorpinu Xinmo í Sichuan-héraði.

Aðeins þrír hafa fundist á lífi, hjón og ungbarn þeirra. Skriðan féll snemma í gærmorgun.

Þeir sem stjórna aðgerðum á vettvangi telja að mjög litlar líkur séu á því að fleiri finnist á lífi.

„Það er engin von að þau séu lifandi,“ segir Huo Chunlai en þrír ættingjar hennar grófust undir skriðunni. Hún segir í raun enga þörf á að grafa lengur. „Það er ekki hægt að finna neitt í þessari skriðu.“

Um þrjú þúsund björgunarmenn taka þátt í leitinni.

Brak húsanna er grafið djúpt í aur og stórgrýti sem féll úr fjalli ofan við þorpið.

Aur- og grjótskriðan þurrkaði þorpið Xinmo út.
Aur- og grjótskriðan þurrkaði þorpið Xinmo út. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert