Lögregluþjónn skaut lögregluþjón

AFP

Lögregluþjónn skaut lögregluþjón á frívakt í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum. Lögregluþjónninn sem skaut var hvítur á hörund en sá sem varð fyrir skotinu er blökkumaður. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en er útskrifaður þaðan.

Á vef Guardian er greint frá atvikinu. Þar kemur fram að lögreglan hafi veitt stolinni bifreið eftirför og í bílnum hafi verið blökkumenn. Lögregluþjónninn sem var skotinn heyrði gauragang heiman frá sér og hélt á vettvang með lögreglubyssuna til að veita lögreglunni liðsauka.

Þar skipuðu tveir lögregluþjónar honum á jörðina áður en þeir áttuðu sig á hver væri þar á ferð. Stóð hann þá upp og gekk í átt að lögregluþjónunum þegar annar lögregluþjónn mætir á svæðið og skýtur svarta lögregluþjóninn. Segist hann ekki hafa þekkt hann og fundist öryggi sínu ógnað.

Rufus J. Tate Jr, lögmaður þess sem var skotinn, segir þetta alvarlegt mál. Hvergi komi fram í skýrslu lögreglu hvernig lögreglu hafi verið ógnað. Segir hann þetta þann ótta sem svartir Bandaríkjamenn þurfi að búa við, að verða skotinn af lögreglu fyrir það eitt að vera svartir.

Lögregluþjónninn sem var skotinn hefur starfað hjá lögreglu í ellefu ár en sá sem skaut hann hefur verið í lögreglunni í átta ár. Tveir þeirra sem stálu bifreiðinni voru handteknir, annar þeirra á hlaupum en hinn eftir að lögregla skaut hann í ökklann. Þriðja ræningjans er enn leitað. Rannsókn á atvikinu milli lögregluþjónanna er enn til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert