Sjö létust er kláfur féll til jarðar

Gulmarg-skíðasvæðið að sumri til.
Gulmarg-skíðasvæðið að sumri til. Af Wikipedia

Sjö létust er kláfur féll til jarðar á skíðasvæði í Kasmír-héraði á Indlandi. Meðal hinna látnu eru tvö börn. Kláfurinn ferjar ferðamenn í 4.100 metra hæð til að njóta útsýnis yfir Himalaya-fjöllum. Ekki er útilokað að fleiri hafi farist en leitað er nú í skóglendinu þar sem kláfurinn lenti.

Gulmarg er eina skíðasvæðið í Kasmír-héraði og þangað streyma ferðamenn að sumri sem vetri.

Á síðustu árum hefur þeim þó farið fækkandi vegna ólgu á svæðinu og átaka sem ítrekað hafa blossað upp. 

Kasmír-hérað skiptist á milli Indverja og Pakistana og hefur svo verið allt frá því nýlendutíð Breta á svæðinu lauk. Báðar þjóðir telja sig eiga tilkall til svæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert