Takmarka aðgang að neyðarpillunni

Lögin munu takmarka aðgang að svokallaðri neyðarpillu.
Lögin munu takmarka aðgang að svokallaðri neyðarpillu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mannréttindasamtök hafa varað við því að ný lög í Póllandi, sem takmarka aðgang að hormónalyfjum sem tekin eru eftir samfarir til að koma í veg fyrir þungun, eða svokallaðri neyðarpillu, geti haft „hörmulegar afleiðingar fyrir þolendur nauðgana“.

Lögin koma til framkvæmda í næsta mánuði, en með þeim verður lokað fyrir það að konur geti keypt neyðarpillu án lyfseðils. Andrzej Duda, forseti Póllands, samþykkti lögin seint á föstudag.

„Við lítum á þetta sem afturför í kvenréttindabaráttunni, sem mun hafa áhrif á unglinga og þá sem búa á afskekktum svæðum. Þetta mun einnig hafa hörmulegar afleiðingar fyrir þolendur nauðgana,“ sagði Draginja Nadazdin, framkvæmdastjóri Amnesty International í Póllandi, í yfirlýsingu í dag.

Með gömlu lögunum gátu allar konur eldri en 15 ára keypt neyðarpilluna í apóteki, en þurfa nú að hitta lækni og fá uppáskrifaðan lyfseðil til að geta fengið pilluna. Hefur verið bent á að þetta geti tekið of langan tíma, en til að pillan virki þarf að taka hana innan 72 klukkustunda.

Konstanty Radziwill, heilbrigðismálaráðherra landsins, hefur réttlætt breytingarnar með því að segja að hormónalyf séu ofnotuð og þau geti haft áhrif á heilsu fólks í landinu. Þá hefur hann gefið í skyn að með því að taka neyðarpilluna séu konur að eyða fóstri.

Fjölmargir hafa gagnrýnt orð ráðherrans og sagt að ekki sé um fóstureyðingu að ræða þegar neyðarpillan er tekin. Fremur sé komið í veg fyrir að fóstur byrji að myndast. Þá séu litlar eða engar rannsóknir sem styðji að lyfið hafi einhverjar afleiðingar á heilsu fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert