Tröllatyppið eyðilagt viljandi

Eitt sinn stóð Tröllatyppið út í loftið en nú er …
Eitt sinn stóð Tröllatyppið út í loftið en nú er það fallið til jarðar. Ljósmynd/Kjetil Bentsen

Hópur fólks er að safna peningum til að gera við norskan bergdranga sem er, eða var réttara sagt, eins og typpi í laginu. Tröllatyppið, eins og bergmyndunin er kölluð, var líklega skemmt viljandi.

Tröllatyppið er að finna í Eigersund suður af Stafangri í Noregi og hefur dregið margan ferðamanninn á þær slóðir að undanförnu. Á laugardag sá hópur fólks sér svo til mikillar skelfingar að steininn var brotinn og typpið því fallið til jarðar. Í sárinu sem myndaðist sáust holur sem sérfræðingar telja að séu eftir borvél. Því þykir ljóst að bergmyndunin sérstæða hafi verið skemmd að yfirlögðu ráði.

Í dag höfðu um 500 manns lagt söfnuninni lið og hafa nú þegar safnast 90 þúsund norskar krónur, rúmlega ein milljón íslenskar krónur.

Kjetil Bentsen, talsmaður söfnunarinnar, segir í samtali við norska ríkissjónvarpið að hann sé sannfærður um að hægt verði að endurreisa Tröllatyppið. „Ég er orðlaus yfir því að einhver geti gert svona lagað,“ sagði Bentsen.

Lögreglan leitar nú vísbendinga um hver kunni að hafa verið að verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert