Ferðaðist 230 km undir rútu

Á flótta.
Á flótta. AFP

Drengur ferðaðist að minnsta kosti 230 km frá Marokkó til Spánar hangandi undir hópferðabifreið. Ferðalag drengsins þykir til marks um örvæntingu þeirra sem leggja allt undir til að komast til Evrópu.

Viðbragðsaðilar í Sevilla tístu myndskeiði af drengnum þar sem hann var leiddur á brott, klæddur skítugum stuttermabol. Í tístinu sagði að rútan hefði komið frá Tangier, sem er í um 230 km fjarlægð frá Sevilla, en samkvæmt lögreglu hóf bifreiðin för sína í Tetouan, sem er enn lengra í burtu.

Það var bílstjóri rútunnar sem gerði yfirvöldum viðvart þegar hann var að hleypa farþegunum út og varð var við eitthvað undarlegt. „Hann hringdi á lögregluna og slökkviliðið og þeir fundu drenginn sem hélt sér föstum undir rútunni,“ sagði talsmaður lögreglu við AFP.

Flóttamenn leggja oft líf sitt að veði til að komast til Evrópu um Spán. Margir freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið eða klifra yfir landamæragirðingarnar sem skilja Ceuta og Melilla frá norðurhluta Marokkó.

Fyrr í þessum mánuði var bifreið ekið gegnum landamærastöð í Melilla og áttu landamæraverðir fótum sínum fjör að launa. Þegar komið var yfir landamærin flúði bílstjórinn en fimm flóttamenn fundust í bifreiðinni; tveir í skottinu, tveir undir fölskum botni aftur í bílnum og einn í mælaborðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert