Fjórum fjallgöngumönnum bjargað í Svíþjóð

Kebnekaise er hæsta fjall Svíþjóðar.
Kebnekaise er hæsta fjall Svíþjóðar. Wikipedia/Alexandar Vujadinovic

Sænska lögreglan þurfti að koma fjórum fjallgöngumönnum til bjargar um helgina eftir að þeir lentu í vandræðum á Kebnekaise-fjalli en fjallið er hæsta fjall Svíþjóðar.

Að sögn Börje Öhman yfirlögregluþjóns er enn hávetur á fjallinu á þessum árstíma en bæði þyrla og björgunarsveitarmenn tóku þátt í að bjarga fjallgöngumönnunum niður.

Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins var mikil þoka og snjór á fjallinu og var ekki hægt að koma þeim til bjargar á þyrlu. Því varð þyrlan að snúa við en björgunarsveitarmenn gengu síðasta áfangann upp á brún Kebnekaise, sem er 2.097 metrar að hæð. Kebnekaise er í Lapplandi og höfðu fjallgöngumennirnir beðið í skála skammt frá toppi fjallsins frá því á laugardag þegar þeim var komið til bjargar í gær.

Að sögn lögreglu voru þeir allir við góða heilsu en voru fegnir að komast í þurr og hlý föt þegar björgunarsveitarmenn komu til þeirra.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert