Fluttir af heimilum sínum með valdi

Íbúar telja margir rýmingaraðgerðirnar full harkalegar.
Íbúar telja margir rýmingaraðgerðirnar full harkalegar. AFP

Íbúar í háhýsunum fjórum Camden í London, sem rýmd voru um helgina, kvarta yfir harkalegum rýmingaraðgerðum og margir vilja meina að þær séu óþarfar. Háhýsin eru öll með sambærilega klæðingu og Grenfell-turninum sem fuðraði nánast upp í eldi fyrir nokkrum dögum, og varð um 80 manns að bana.

Margir hafa neitað að yfirgefa heimili sín í háhýsunum og í gærkvöldi hafðist heimilisfólk enn við í um 120 íbúðum. Langflestir vilja ekki fara vegna þess þeir þurfa að sjá um veika eða aldraða ættingja og treysta sér ekki til að fara með þá á flakk.

Íbúi í einu háhýsanna sagði í samtali við The Guardian að hann hefði lent í orðaskaki við öryggisverði sem meinuðu honum um aðgang að íbúð sinni þegar hann kom heim af bænastund í hverfismoskunni um ellefuleytið í gærkvöldi. Vilja margir meina að yfirvöld séu að bregðast of harkalega við, hættan sé ekki jafn mikil og látið sé af.

Maður á áttræðisaldri stóð fyrir utan Burnham-turninn, þar sem hann hefur búið í 38 ár, og sagðist ekki ekki ætla að yfirgefa heimili sitt nema hann fengi úthlutað öðru íbúðarhúsnæði. En honum og konunni hans hafði verið boðið að vera fjórar nætur á hóteli. Gamli maðurinn sagði þau ekki treysta sér til þess enda væri konan hans mjög veik af krabbameini.

Hann sagði öryggisverði hafa farið um ganga blokkarinnar og bankað upp á fólki, en margir hefðu sett miða á hurðina til að láta vita að þeir ætluðu ekki að fara. „Ég ætla að vera hér áfram af því konan mín er mjög veik, það er forgangsatriði hjá mér að hugsa um hennar þarfir,“ sagði maðurinn í samtali við Guardian.

Ibnul Sayed er 23 ára og býr í Dorney-turninum. Hann hugðist dvelja áfram íbúðinni sinni þangað til hann var þvingaður út af öryggisvörðum á laugardagskvöld. Hann laumaðist aftur inn í turninn til að ná í nauðsynjar fyrir fjölskylduna sem fær nú að gista hjá frændfólki. Hann segist hafa brotnað saman eftir átök við öryggisverði og að honum líði mjög illa eftir að hafa verið látinn yfirgefa heimili sitt með valdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert