Fundu líkamsleifar horfins blaðamanns

Blaðamaður að störfum í Guerrero í Mexíkó.
Blaðamaður að störfum í Guerrero í Mexíkó. AFP

Lögregla í Mexíkó hefur fundið brenndar líkamsleifar blaðamanns sem var rænt í maí. Erfðarannsóknir hafa leitt í ljós að líkamsleifarnar, sem fundust við þjóðveginn milli bæjanna Lombardia og Nueva Italia í ríkinu Michoacan, eru af Salvador Adame.

Adame var eigandi sjónvarpsstöðvar en tveimur dögum áður en honum var rænt hét forsetinn Enrique Pena Nieto auknum aðgerðum til að tryggja öryggi blaðamanna og draga árásarmenn fyrir dómstóla.

Ummælin lét forsetinn falla í kjölfar þess að verðlaunablaðamaðurinn Javier Valdez var myrtur í Sinaloa en að minnsta kosti sex blaðamenn hafa verið myrtir í Mexíkó það sem af er ári. Valdez fjallaði um eiturlyfjahópa og spillingu í stjórnkerfinu.

Samtökin Blaðamenn án landamæra hafa sett Mexíkó í þriðja sæti yfir hættulegustu ríkin fyrir blaðamenn. Aðeins Sýrland og Afganistan eru ofar á lista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert