Einn þekktasti andófsmaður heims dauðvona

Liu Xiaobo.
Liu Xiaobo.

Kínverski Nóbelsverðlaunahafinn Liu Xiabo hefur fengið reynslulausn vegna veikinda. Hann var greindur með krabbamein í lifur í síðasta mánuði og er dauðvona. Liu var árið 2009 dæmdur í 11 ára fangelsi fyrir andóf og skrif sín gegn mannréttindabrotum stjórnvalda í Kína.

Að sögn lögmanns Liu er hann á sjúkrahúsi í Shenyang þar sem fær meðferð við sjúkdómnum. Að sögn lögmannsins Mo Shaoping var hann greindur með krabbamein 23. maí og látinn laus nokkrum dögum síðar.

Liu Xiaobo er 61 árs gamall andófsmaður, rithöfundur, prófessor og mikill þyrnir í augum kínverskra ráðamanna. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2010 og hafði val Nóbelsnefndarinnar á honum mikil áhrif á samskipti norskra og kínverskra stjórnvalda.

Liu Xiaobo er einn af helstu andófsmönnum landsins og hefur hlotið viðurkenningar fyrir baráttu sína gegn alræði og mannréttindabrotum kínverska kommúnistaflokksins.

Liu tók þátt í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 1989 og var handtekinn skömmu eftir að kínverski herinn braut mótmælin á bak aftur með grimmilegum hætti. Hann var síðan leystur úr haldi árið 1991. Adam var þó ekki lengi í paradís því Liu var handtekinn aftur og var í þrælkunarbúðum á árunum 1996-1999 fyrir að krefjast þess að þeir sem voru handteknir vegna mótmælanna í Peking yrðu leystir úr haldi, segir í grein Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu eftir að tilkynnt var um að Liu hlyti friðarverðlaun Nóbels árið 2010.

Liu Xia og Liu Xiaobo.
Liu Xia og Liu Xiaobo.

Liu var handtekinn í þriðja skipti í desember 2008, tveimur dögum áður en kínverskir lýðræðissinnar birtu stefnuyfirlýsingu sem hann hafði samið með fleiri andófsmönnum. Hann var dæmdur í ellefu ára fangelsi ári síðar fyrir „niðurrifsstarfsemi“ og undirróður. Dómurinn var kveðinn upp á jóladag og líklegt er að kínversk yfirvöld hafi vonað að með því að velja þann dag myndi fangelsisdómurinn ekki vekja mikla athygli á Vesturlöndum.

Sakaður um landráð

Í stefnuyfirlýsingunni, sem nefnist „Charter 08“ á ensku, er krafist pólitísks frelsis og mannréttinda í Kína. Yfir 10.000 Kínverjar hafa undirritað hana á netinu, þ. á m. margir landsþekktir menntamenn.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars að gera eigi „málfrelsi, prentfrelsi og akademískt frelsi algilt og tryggja þannig að borgarar geti verið upplýstir og neytt réttar síns til pólitísks aðhalds“. Í yfirlýsingunni er einnig hvatt til þess að undirróðurslög, sem notuð voru til að dæma Liu, verði afnumin. „Við ættum að láta af þeim ljóta ósið að líta á orð sem glæpi.“

Liu hefur viðurkennt að sér hafi orðið á í messunni í viðtali við tímarit í Hong Kong árið 1988 þegar hann lét þau orð falla að ef til vill þyrfti Kína að vera nýlenda vestræns ríkis í 300 ár áður en hægt yrði að koma á lýðræðislegum umbótum í landinu. Yfirvöldin notuðu þessi ummæli gegn honum í réttarhöldunum og þau urðu til þess að kínverskir þjóðernissinnar líta á hann sem landráðamann.

Liu Xiaobo ásamt bróður sínum, Liu Xiaoxuan, árið 2005.
Liu Xiaobo ásamt bróður sínum, Liu Xiaoxuan, árið 2005. AFP

Liu Xiaobo fæddist í Jilin-héraði í Norðaustur-Kína 28. desember 1955. Hann er með doktorsgráðu í kínverskum bókmenntum og var gestakennari við nokkra háskóla á Vesturlöndum á árunum 1988-1989, m.a. Óslóarháskóla, en ákvað að snúa aftur til Kína þegar mótmælin hófust. Um tíma var hann einnig prófessor við háskóla í Peking en honum var bannað að kenna í kínverskum ríkisskólum eftir mótmælin 1989.

Liu hefur verið á meðal forystumanna samtaka kínverskra rithöfunda. Þótt bannað hafi verið að gefa ritverk hans út í Kína hafa mörg þeirra verið gefin út á kínversku í Hong Kong og víðar í heiminum.

Beittu Norðmenn miklum þrýstingi

Kínversk stjórnvöld beittu Norðmenn miklum þrýstingi á bak við tjöldin í marga mánuði til að reyna að koma í veg fyrir að Liu Xiaobo fengi friðarverðlaun Nóbels. Eins og vænta mátti brugðust kínversku ráðamennirnir bálreiðir við vali nóbelsverðlaunanefndarinnar í Ósló og sögðu hana hafa vanvirt hugsjónirnar á bak við friðarverðlaunin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert