Hjúkrunarfræðingurinn fékk lífstíðardóm

Wett­laufer gaf fórn­ar­lömb­um sín­um ban­væn­an skammt af insúlíni.
Wett­laufer gaf fórn­ar­lömb­um sín­um ban­væn­an skammt af insúlíni. Wikipedia

Kanadískur hjúkrunarfræðingur hefur verið dæmdur til lífstíðarfangelsisvistar fyrir að hafa myrt átta vistmenn á öldrunarheimilum í Ontario með insúlíni. Greint er frá þessu á fréttavef Breska ríkisútvarpsins. 

Elizabeth Wettlaufer sem er 49 ára gömul játaði fyrr í mánuðinum að hafa drepið fimm konur og þrjá karlmenn á tveimur öldrunarheimilum á árunum 2007 til 2014. Morðin voru fram­in á nokk­urra ára tíma­bili og voru fórn­ar­lömb­in á aldr­in­um 75-96 ára. 

„Ég olli gríðarlegum sársauka og þjáningu og dauða,“ sagði Wettlaufer eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp og bætti við: „Fyrirgefðu er of lítið orð, mér þykir þetta ótrúlega leitt.“ Wettlaufer var tjáð að hún kynni aldrei að ganga frjáls framar.

Margir ættingjar fórnarlambanna voru viðstaddir í dómshúsinu þegar dómurinn var kveðinn upp. Aðrir vinir og vandamenn söfnuðust saman fyrir utan til að tjá reiði sína. 

„Ég held að hún ætti að eyða restinni af lífinu í litlum kassa og hugsa um hvað hún hefur gert,“ sagði vinkona eins fórnarlambsins. „Afsökunarbeiðni sem þessi er bara sóun á tíma, pappír og lofti,“ sagði annar. 

Lögreglan hóf rannsókn á dauðsföllunum á öldrunarheimilunum í september. Wettlaufer sagði upp störfum degi seinna og var handtekin í október. Í janúar lögðu lögregluyfirvöld fram sex ákærur aukalega, fjórar fyrir morðtilraunir og tvær fyrir líkamsárásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert