Hyggst bjóða upp 500 kg af hornum

Nashyrningsflutningar.
Nashyrningsflutningar. AFP

Nashyrningaræktandinn John Hume hyggst bjóða upp um hálft tonn af nashyrningshornum eftir að dómstóll í Suður-Afríku úrskurðaði gegn banni við sölu hornanna innanlands. Bannið hefur verið í gildi frá 2009 en alþjóðleg viðskipti með nashyrningshorn hafa verið bönnuð frá 1977.

Hume heldur fleiri en 1.500 nashyrninga og ver um það bil 18 milljónum á mánuði til að tryggja öryggi þeirra og velferð. Dýralæknar fjarlægja reglulega horn dýranna til að draga úr líkunum á því að veiðiþjófar freistist til að fella skepnurnar og er Hume sagður eiga um 6 tonn á lager.

Nashyrningsræktendur segja að draga megi úr veiðiþjófnaði með því að heimila viðskipti með hornin en gagnrýnendur segja að lögleiðing myndi hafa þveröfug áhrif. Þeir segja m.a. hættu á því að ólöglega fengin horn yrðu „þvegin“ og myndu rata á hinn löglega markað.

Veiðiþjófar drápu 1.054 nashyrninga í Suður-Afríku í fyrra en um er að ræða 10% fækkun frá 2015. Talið er að í landinu sé að finna allt að 20.000 nashyrninga; um 80% allra nashyrninga Afríku.

Nashyrningshorn eru mulin og notuð í náttúrulyf, auk þess sem þau þykja stöðutákn.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert