Merkel mildast í afstöðu sinni

Merkel þykir hafa mildast í afstöðu sinni til hjónabands samkynja …
Merkel þykir hafa mildast í afstöðu sinni til hjónabands samkynja para. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari virðist hafa mildast í afstöðu sinni til hjónabands samkynja para en eftir að hafa margsinnis ítrekað andstöðu sína segir hún nú að þingmönnum Kristilega demókrataflokksins sé frjálst að haga atkvæðum sínum um málið eftir eigin samvisku.

Lög um staðfesta samvist samkynja para voru samþykkt í Þýskalandi árið 2001 en þau geta ekki gengið í hjónaband.

Flokkur Merkel er undir miklum þrýstingi varðandi málið en gengið verður til kosninga í september. Í viðtali við tímaritið Brigitte sagðist kanslarinn vilja beina umræðunni í þann farveg að ákvörðun um málið snerist um samvisku fólks frekar en að það væri þvingað til einhverrar afstöðu.

Um er að ræða nokkurn viðsnúning en árið 2013 sagðist Merkel andvíg hjónaböndum samkynja para vegna „velferðar barna“.

Afstöðu Kristilegra demókrata til málsins má m.a. rekja til samstarfsins við systurflokkinn CSU í Bæjaralandi, sem berst fyrir „hefðbundnum“ fjölskyldugildum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert