Sex látnir og 31 er saknað

Að minnsta kosti sex eru látnir og 31 er saknað eftir að ferja sökk á uppistöðulóni í norðvesturhluta Kólumbíu í gær.

Yfirvöld í Kólumbíu hafa ekki upplýst um hvað varð til þess að  ferjan Almirante sökk á El Penol-uppistöðulóninu við bæinn Guatape. Afar vinsælt er meðal ferðamanna að sigla á lóninu.

Allir þeir sem hafa fundist látnir eru frá Kólumbíu. Að sögn slökkviliðsstjórans, Luis Bernardo Morales, sem tók þátt í björgunarstarfinu sökk ferjan mjög hratt en 170 voru um borð í ferjunni þegar slysið varð. Flestum var bjargað um borð í aðra báta. 

Ferjan Almirante fórst á lóninu í gær.
Ferjan Almirante fórst á lóninu í gær. AFP

Þrjár herþyrlur taka þátt í leitinni að þeim sem er enn saknað. Uppistöðulónið er í 68 km fjarlægð frá borginni Medellin og er einn af vinsælustu ferðamannastöðunum á þessu svæði. 

Laura Baquero, sem bjargaðist úr sökkvandi skipinu, sagði í samtali við sjónvarpsstöð í Kólumbíu að allt of margir hafi verið um borð í ferjunni og að farþegar hafi ekki verið í björgunarvestum. Hún segir að fjölmörg börn hafi verið um borð þegar ferjan sökk. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert